Bernskumyndin

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Friðrik Steingrimsson

Bernskumyndin marga gleður,
minning fögur, hrein og tær,
upp í hugann ætíð leitar,
eins og verið hefð´í gær.

Afrek þau, sem æskan vinnur,
efla bæði kjark og þor,
eins er lítill labbakútur
lagð' að baki fáein spor.

Una frjáls við ærsl og leiki,
oft í glöðum vina hóp,
ævintýrin ótal mörgu,
ungur barnsins hugur skóp.

Svo ef hugann sorgin þjáði,
sefað fékk það barnsins harm,
þegar lúrði lítill drengur,
ljúft við hlýjan móðurbarm.